Flokkaskipt greinasafn: Bakstur

Það er ekkert betra en ilmurinn af nýbökuðu bakkelsi.

Rice Krispies

Eftirlæti allra barna og eitthvað sem fullorðnir stelast til að fá sér af í öllum barnaafmælum, Rice Krispies kökur geta ekki klikkað. Mamma gerði kransakökur úr þessu einfalda hráefni fyrir fermingar okkar systkina og vakti alltaf mikla lukku þar sem marsipan er ekki mitt eftirlæti. Eftirfarandi er uppskrift sem er lausari í sér en uppskriftin hennar mömmu, en engu að síður mjög góð:

100 gr mars
100gr suðusúkkulaði
10 mtsk sýróp
120 gr smjörlíki

Allt brætt vel saman í potti, tekið af hitanum og 200gr af Rice Krispies blandað út í, passa að hræra vel. Smjörpappír settur í ferkantað mót (1-2 fer eftir stærð), blöndunni hellt ofan í og þjappað mjög vel. Kælt og skorið í ferninga.

Fjallagrasabrauð

Það er heldur betur farið að kólna og haustið farið að segja til sín. Ég ákvað því að halda mig innandyra í morgun, nýta hráefni úr eldhússkápunum og baka brauð. Uppskriftina og fjallagrösin í hana fékk ég hjá tengdamömmu, en hún fékk hana hjá nágrannakonu sinni í sumar sem var svo elskuleg að koma með nýbakað brauð yfir. Frumraun mín í notkun fjallagrasa heppnaðist bara mjög vel – endilega prófið líka:

1 kg þurrefni (hveiti, rúgmjöl, heilhveiti, haframjöl)
1 tsk natron
1 tsk salt
8 tsk lyftiduft
1 líter vökvi (ab-mjólk, vatn, léttmjólk, súrmjólk)
100gr fjölkornablanda
15 gr fjallagrös smátt saxað
Döðlur – niðurskornar eftir smekk

Hitið ofninn á 170 gráður. Blandið þurrefnunum vel saman, auk fjölkornablöndunnar og daðlana. Hellið vökvanum útí og hnoðið vel (deigið er blautt og lítur pínu út eins og hafragrautur). Klæðið 6 ílöng álform með smjörpappír (fást átta saman í pakka í Bónus). Skiptið deiginu jafnt ofan í álforminn og setjið á plötu. Bakið í klukkutíma.

Tengdamamma hefur fryst brauðið með ágætisárangri en þau eru örugglega best nýbökuð með smjöri, osti og góðri sultu. Fjölkornablöndunni má skipta út fyrir annað korn, ég hugsa að rúsínur geta líka verið góðar í stað daðlana (má líka sleppa alveg). Þá má líka sleppa fjallagrösunum fyrir þá sem ekki eiga þau. Næst langar mig að prufa að setja sólþurrkaða tómata og oregano og svo er líka gott að setja kúmen, en þannig fengum við það fyrst frá nágrannakonu tengdó. Um að gera að prufa sem flest 🙂

Skinkuhorn

Þá er það enn ein klassíkin úr baksturshorni Brekkukots, en þessa uppskrift ólst ég upp við í æsku. Skinkuhorn eru vinsæl jafnt hjá börnum sem og fullorðnum, einföld í gerð og gómsæt. Uppskrift:

2 1/2 dl mjólk
100gr smjörlíki
1 pakki þurrger
1 tsk sykur
1 tsk salt
500 gr hveiti
1 askja smurostur að eigin vali

Hitið ofninn á 250 gráður. Smjörlíkið er brætt og mjólkinni svo bætt út í, yljað saman en alls ekki láta sjóða. Þurrefnunum blandað saman í skál og volgri blöndunni helt út í. Hnoðað vel saman og látið hefast í eins og klukkustund. Þá er deiginu skipt í tvennt og hvor hluti flattur út í hring. Hver hringur er svo skorinn út í 8 þríhyrninga eins og pizza.
Það má fylla hornin með hverju sem er, ég set oftast beikonsmurost og smá skinkukurl, þá hef ég einnig prufað að setja ostsneið, pizzasósu, skinkukurl og pepperóní. Fyllingin er sett á breiðasta enda hvers þríhyrnings, endarnir brotnir innaf og svo rúllað upp. Ég leifi svo hornunum að hefast í eins og 15 mínútur til að koma í veg fyrir að fyllingin bráðni út í bakstrinum.
Sláið egg og smá dass af mjólk saman og penslið hornin, dreifið þvínæst sesamfræjum eða birkifræjum yfir (fer eftir smekk). Bakið í 10-15 mínútur eða þar til gullinbrún. Látið kólna smá og njótið vel. Hornin geymast vel í frysti og er lítið mál að taka þau út og afþýða í örbylgju ef gesti ber að garði.

Gulrótarmuffins

Enn einn sunnudagsmorguninn og hvað er betra en að henda í gulrótarmuffins úr lífrænt ræktuðum gulrótum til að gleðja eiginmanninn? Læt fylgja með mynd af afrakstrinum, fleiri er svo á leiðinni af ýmsum framkvæmdum. Öll loforð um hina ýmsu pósta fór fyrir bí þegar fallega ofurtalvan mín reyndist gölluð og þurfti á yfirhalningu að halda í sumar. Glataði mikið af myndum sem ég var búin að taka fyrir bloggið og er að vinna það upp smátt og smátt – en hvað um það muffins (uppskrift kemur síðar) :

Kanilhnútar

Frá því ég man eftir mér hef ég verið vitlaus í kanil, ég drekkti yfirleitt mjólkurgrautnum mínum með honum, þrjóskaðist til að tyggja Big Red tyggjó þó mér þætti það alltof sterkt og svona mætti lengi telja. Best þótti mér þó (og þykir enn) nýbakaðir kanilhnútar hjá mömmu – krakkarnir í hverfinu hópuðust oft á pallinn hjá okkur í den þegar mamma hóaði í kaffi (meira að segja synir bakarans í næsta húsi), svo góðir eru þeir. Ég baka þá oft sjálf, þeir eru mjúkir, bragðgóðir og hentugt að eiga þá í frysti þegar óvænta gesti ber að garði. Eftirfarandi er uppskrift af þessari sælu:

1 kg hveiti
4 msk þurrger (2 pakkar þurrger)
6 msk sykur
1 tesk salt
3 stk egg
4,5 dl mjólk
150 gr smjörlíki

Mjólk og smjörlíki er iljað saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað – alls ekki láta sjóða. Þurrefnunum er blandað vel saman í skál og eggjunum þvínæst bætt útí. Mjólkurblöndunni er svo blandað út í deigið og allt hnoðað saman. Látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma undir hreinu og röku viskastykki.

Skiptið deiginu upp í fjóra parta, fletjið hvern og einn út í aflangann ferning. Bræðið smá smjörlíki og penslið ofan á útflatt deigið, dreifið hæfilegu magni af kanelsykri yfir. Takið pizzaskera/kleinuskera og skerið deigið í c.a. 3cm lengjur á eftir lengri hlið deigsins. Takið hverja lengju fyrir sig, brjótið saman langsum og hnýtið hnút – leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Þegar allir hnútarnir eru tilbúnir og konmir á plötu látið þá hefast í c.a. 20 mín.

Hitið ofninn á 200gráður. Penslið hnútana með eggjablöndu (eitt egg og dass af mjólk slegið saman). Bakið í miðjum ofni í c.a. 12 mín (fer eftir stærð hnútanna). Þeir ættu að líta svona út þegar þeir eru tilbúnir:

Borðist nýbakað með ískaldri mjólk – afgangurinn fer svo í frystinn til betri tíma!

Bananamuffins með súkkulaðibitum

Sunnudagsmorgnar eru að mínu mati sérlega hentugir til baksturs. Þennann morgun var komin tími á að baka bananamuffins, já eða tími til kominn að baka muffins úr vel þroskuðu bönununum sem voru að syngja sitt síðasta. Læt hér fylgja uppskrift af þessari dásemd – en hún er einföld í framkvæmd og smakkast mjög svo vel:

245 gr hveiti
100 gr sykur
50 gr ljós púðursykur/dökkur er í lagi ef hinn er ekki til
1 tesk. lyftiduft
1/2 tesk matarsódi
1/4 tesk salt
100 gr brytjað dökkt (eða hvítt) súkkulaði/ég hef líka notað konsum dropa

2 stór egg
113 gr smjör, brætt og kælt
3 vel þroskaðir bananar
1 tesk vanilludropar

Aðferð:
Ofninn stylltur á 180 gráður. Þurrefnunum er blandað vel saman í hrærivélaskál. Smjörið er brætt og kælt í annari skál, eggjunum hrært við (ég nota gaffal), bananarnir afhýddir og stappaðir vel saman við og svo vanilludropum bætt út í og hrært vel. Bananastöppunni er þvínæst blandað út í hrærivélaskálinna og allt saman hrært vel. Ég baka þessa uppskrift alltaf í sílíkonmuffinsformum sem ég keypti í Bónus á sínum tíma. Uppskriftin nægir í 12 stór muffins. Bakist í 20-25 mín á 180 gráðum.

Muffinsið er best nýbakað en geymist þó ágætlega í nokkra daga eftir bakstur. Þá er líka gott að taka það ilmandi nýtt úr ofninum og hafa með því eins og eina kúlu af vanilluís : )

Rómantískar muffins

Þessa dagana er ég á fullu í ljósmyndun í skólanum sem er bara gaman. Lotunni líkur á föstudaginn og fengum við það verkefni fyrir skil að taka mynd af vöru, annars vegar tæknilega mynd og hinsvegar mynd af vörunnni í sölulegu umhverfi. Ég ákvað að baka muffins og skapa pínu rómantískt umhverfi í kringum kökurnar. Afraksturinn varð þessi:

Myndin er óunnin, mér finnst hún bara svo falleg að ég ákvað að setja hana hérna inn. Þetta er vanillumuffins fyllt með appelsínukremi og toppað með vanillukremi með sykurmassablómum. Allt saman rann ljúflega niður hjá bekkjarsystkinum mínum í lok föstudags 🙂

Formkökukeppni mömmur.is

Snillingarnir hjá mömmur.is efndu nýlega til keppni í formkökuskreytingum. Ég mátti til með að senda inn framlag í keppnina og fyrir valinu urðu Formkökuísarnir mínir sem ég gerði fyrir viðburðinn Mömmur og Muffins á Akureyri.

Ég keypti þessi litríku ísform í Mega Store og fyllti þau með nammi til að gera þau stöðug:

Þá bakaði ég gulrótarmöffins og festi þau ofan í ísformin með því að sprauta rjómaostakremi innan í kantinn:

Þvínæst sprautaði ég kreminu utan á muffinsin og toppaði með hlaupdoppum í stíl við formin og voila:

Það var æðislega gaman að sjá lítil börn taka sér „ís“ í hönd og uppgötva að hann var ekki kaldur, taka svo lítinn bita og fatta að þetta var kaka en ekki ís. Ennþá dásamlegra var að fylgjast með svipnum á þeim þegar nammið í botninum var uppgötvað og mátti heyra „mamma það er nammi!“ galað yfir allann Listigarðinn.

Mig langar til þess að endurtaka leikinn og prufa mig meira áfram á þessu sviði – muffins eru svo einstaklega einföld í framkvæmd og svo dásamlega góð á bragðið 🙂

Fermingarkaka

Bjarmi frændi fermdist fyrr á þessu ári, veislan var samsuða af ýmsu góðgæt gert af vinum og ættingjum. Mér hlotnaðist sá heiður að setja saman fermingarkökuna og með hjálp frá súpermömmum sem kunna sitt fag í sykurmassagerð og góðu hugmyndaflugi varð þessi skátakaka til 🙂

Þjóðlegt var það – skátatjald, varðeldur og íslenski fáninn.

Endilega kíkið inná mömmur.is – þær luma á ýmsum góðum hugmyndum fyrir veislur af ýmsu tagi 🙂

M