Flokkaskipt greinasafn: Brúðkaup

Ýmsar hugmyndir fyrir brúðkaup

Borðskreytingar

Þá að borðskreytingum úr brúðkaupinu. Það var mikið búið að pæla og spekúlera hér á bæ um hvernig skreytingar við vildum hafa, við vorum þó sammála frá upphafi; þær mættu ekki kosta mikið. Það kom sá dagur að ég fékk hugljómun þegar ég kláraði úr einni sultukrukku sem var svo falleg í laginu að  mér fannst mikil synd að hún færi í endurvinnsluna. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði rekist á skreyttar krukkur á mörgum hönnunarbloggum. Ég stakk því uppá því við ektamanninn að við myndum safna krukkum af ýmsum stærðum og gerðum, skreyta og setja svo kerti ofan í. Það varð eining um þetta og hófst þá söfnunin.

Það er skemst frá því að segja að við söfnuðum yfir 300 krukkum með dyggri aðstoð ættingja og vina. Eiginmaðurinn tók að sér að miðahreinsa krukkurnar og í sameiningu skreyttum við þær á ýmsann máta. Flest allt skrautið sem við notuðum áttum við hérna heima t.d. borða, blúndur og pappír. Ég fór svo og verslaði kökublúndu í Mega Store, við hjú týndum köngla í massavís og svo freistaðist ég til þess að kaupa skrautborða með lími í A4 og lakk í Föndru. Útkoman varð fjölbreytt, hér eru þær nýttar áfram inná heimilinu í bland við aðra skrautmuni:

Allt saman í okkar litum og vakti mikla lukku, þegar hafa margir fengið krukkurnar lánaðar og hafa þær verið notaðar í nokkur stórafmæli, jólahlaðborð og árshátíð. Mér reiknast til að heildarkostnaður við allar krukkurnar hafi verið tæpar 4000kr. Eftir brúðkaupið, sem var í Nóvember, pökkuðum við svo fallegustu krukkunum saman í selló, fjórar til fimm í hvern pakka, og gáfum vinum og ættingjum í aðventugjafir. Þær lýsa nú upp hús ástvina okkar um allt land og er bara gaman að því.

Alþjóðlegi strumpadagurinn

Í dag er alþjóðlegi strumpadagurinn en þessar sígildu teiknimyndir eru órjúfanlegur hluti af minni æsku. Ég man eftir tilhlökkuninni um helgar þegar ég fór með mömmu og pabba í Hagkaup í Skeifunni því þar var sjónvarpsherbergi fyrir börn og strumparnir ætíð á skjánum.
Þegar við hjón vorum að plana brúðkaupið okkar veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að hafa kökutopp á eftirréttahlaðborðinu. Ég var búin að skoða mikið á netinu og velja þrjá sem mér leyst á og sýndi eiginmanninum sem hafði ekki mikla skoðun á þessum málum.
Ég rakst svo á þessi:

og sýndi eiginmanninum tilvonandi meira í gríni en alvöru og hann varð svo yfir sig hrifinn að ég átti ekki til orð. Hjónaband snýst um málamiðlanir og þó svo að ég hefði frekar viljað kökutopp sem passaði öðrum skreytingum þá fannst mér svo æðislegt hversu upprifinn eiginmaðurinn var af þessari tillögu að ég pantaði strumpahjúin og lítið hús með. Þau standa nú uppí hillu og minna ekki bara á dásamlegann dag heldur líka það að halda í barnið í sjálfum okkur.

Hvar á ég að sitja?

Það er ekki nóg að raða fólki í sæti í brúðkaupi, það þarf að merkja borðin vel svo að fólk eigi auðveldara með að finna sitt borð. Okkar lausn var einföld, ódýr og mjög skemmtileg. Við keyptum litlar minnisbækur í Tiger sem við notuðum sem borðavísi. Utan á hverja bók fór smá skraut og svo númerið á borðinu, inní bókinni ver penni, líka úr Tiger, og máttu gestir skrifa hvað sem er í bækurnar – trúið mér við engdumst um af hlátri við lesturinn daginn eftir!
Ég notaði silfurlitann glimmergjafapappír til að búa til borðnúmer og afskorninga af boðskortunum til skrauts. Framkvæmdin er á þessa leið:

  1. Tölustafirnir prentaðir út í réttri stærð úr Word
  2. Þeir kliptir út og notaðir til þess að strika eftir á glimmerpappírinn, ég þurfti að strika stafina á rönguna á glimmerpappírnum og þess vegna snúa pappírsstöfunum öfugt.
  3. Glimmerstafirnir klipptir út
  4. Skrautið límt á og svo glimmerstafurinn
  5. Voila – tilbúið 🙂

Heildarkostnaður við gerð bókanna (9stk) var um 3500kr og við eigum skemmtilega minningu frá hverju og einu borði. Það má útfæra þessa hugmynd á marga vegu, nota annað letur í tölustafina, nota fallegann borða í stað blúndunnar, skipta út litunum, nota ljósmyndir í stað númers, götuheiti, trjátegundir og bara nefnið það – látið hugmyndaflugið ráða!

Aftur í gírinn

Þá er fyrsta skólaárinu lokið með glans, væri alveg til í að hoppa yfir sumarið og byrja strax aftur. Og þó, við hjú stöndum enn og aftur í flutningum þar sem að leiguíbúðin okkar fagra seldist, þakka fyrir að hafa ekki verið búin að taka uppúr öllum kössum. Stórafmæli eiginmannsins er framundan og ég ætla að reyna að gera öllum kræsingum skil með myndum og uppskriftum! Ætla líka að koma með nokkrar tillögur að brúðkaupstengdum verkefnum sem við framkvæmdum fyrir stóra daginn okkar á síðasta ári og er þetta aðdragandinn að því:

Við giftum okkur í Nóvember og völdum okkur litapalettu samkvæmt því, hvítur, silfraður, blár, grár og brúnn urðu fyrir valinu og svo var unnið í kringum það. Læt hér fylgja með litapalettuna og svo fljúga vonandi inn blogg í framhaldinu!