Flokkaskipt greinasafn: Fyrir og eftir

Skattholið fína

Eiginmaðurinn heldur því fram að ég eigi plássfrekasta áhugamál sem til er; að safna húsgögnum. Ég varð að játa það á mig þar sem ég stóð uppá gámasvæði í sumar og tók mynd af illa förnu skattholi á símann minn í  þeim tilgangi að sannfæra hann um að þetta umkomulausa húsgagn hreinlega yrði að fá samastað hjá okkur.
Það var ekki fallegt að sjá greyið, vatnsblettir, krot innan í skúffum og brotinn fótur. En ég dröslaði því samt í geymslu hjá pabba gamla og ákvað að finna tíma til að gera það upp. Sá tími kom í desember, pabbi vinkonu minnar gerði við fótinn, ég pússaði það létt upp, bar á það olíu og veggfóðraði skúffurnar með veggfóðursafgangi sem ég átti. Skattholið fékk svo fínann stað fram á gangi þar sem það mun koma til með að geyma ýmsar gersemar. Eiginmaðurinn (sem var mjög efins um þetta ævintýri) er meira að segja búinn að eigna sér eina af litlu skúffunum undir lykla og síma, sem er gott mál svo fremi sem ég fæ að halda áfram að draga heim húsgögn!

Eins og sést þá var gripurinn ekki mikið fyrir augað, ég splæsti í tekkolíu og veggfóðurslím hjá Litalandi, veggfóðrið átti ég fyrir og tíminn sem fór í þetta var um það bil 4 tímar. Ekki amalegt, myndgæðin eru reyndar ekki þau bestu svona í skammdeginu en þið sjáið vonandi muninn!

Vorið er komið…….

……………….. já eða allavega í eldhúsinu okkar. Tengdaforeldrarnir gáfu okkur um daginn ljóskúpul í eldhúsið sem hafði munað sinn fífil fegurri. Við þáðum hann með þökkum, og leyfi til að gera hvað sem okkur dytti í hug við hann. Kúpullinn er fallegur í laginu og því ákváðum við að leyfa honum að njóta sín eins og hann er, en ákváðum að fríska uppá hann með smá spreylakki.

Við völdum fallegan sóleyja-gulann lit og kom það í hlut eiginmannsins, sem er handlagin með eindæmum, að teypa og spreyja. Kúpullinn er hvítur innan í en gulur að utan og frískar núna heldur betur uppá eldhúsið:

Kostnaður: Kúpull – gefins, Sprey og grunnur – 2890kr, Tími – 4 tímar með bið á milli umferða. Ekki slæmt 🙂

Fyrir og eftir: Fermingarbekkur

Okkur sárvantaði fleiri stóla/sófa þegar við fluttum og þar sem við áttum bara tveggja og hálfs sæta sófa þá fór ég á stúfana í leit að einhverju ódýru en sniðugu. Eftir að hafa þrætt Bland í nokkra daga án árangurs, rakst ég á mynd af gömlum fermingarbekk hjá Fjölsmiðjunni á Akureyri fyrir litlar 2500kr og keypti hann meira fyrir nostalgíuna en praktík. Hann reyndist svo vera hin mesta gersemi og er þannig gerður að undir sessunni er rúmfatageymsla, hægt er að draga út armana og leggja bakpullurnar niður í endana og búa til legubekk/rúm.

Ég var nú ekkert sérstaklega hrifin af áklæðinu á bekknum, en það er mjög þykkt og svampurinn og gormarnir í góðu lagi, þannig að í stað þess að bólstra hann uppá nýtt þá ákvað ég að sauma utan um hann áklæði. Til verksins leitaði ég að efni í eigin fórum og fann fallegan bómullardúk sem ég keypti á útsölu í Rúmfatalagernum fyrir löngu síðan. 

Ég mældi svo bekkinn og pullurnar gróflega og sneið eftir málunum búta. Allir kantar á bútunum voru svo zik zakkaðir svo að efnið myndi ekki rekjast upp. Þvínæst títaði ég áklæðið í rétt form eftir svampnum og saumaði svo eftir títuprjónunum. Til að ganga almenninlega frá ætla ég að hefta áklæðið niður með heftibyssu svo að efnið strekkist fallega yfir, í millitíðinni títaði ég það bara niður að framan fyrir myndatöku. Afraksturinn af þessu ævíntýri er svo eftirfarandi, ég er mjög skotin í bekknum svona ferskum og á örugglega ekki eftir að tíma að láta bekkinn frá mér þegar við loks eignumst nýjann sófa:

Kostnaður: Bekkur – 2500kr, Bómullardúkur – 1690kr, Tími – 2 klukkustundir!

Nýjir staðir og gamlir

Við erum flutt, nýja íbúðin er dásamleg en ég get ekki að því gert að sakna pínu gamla Brekkukots:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er fyrsta veggfóðrið sem ég lagði, kolféll fyrir því í Sirku og var ekki lengi að plata bróður minn í að veggfóðra með mér – veggfóðrið kemur frá Ferm Living eins og svo margt annað fallegt.
Það er algjör synd að geta ekki veggfóðrað á nýja staðnum – finnst það klárlega einn stæðsti gallinn við að vera í leiguíbúð. Læt mig í staðinn dreyma þar sem ég sit í vinnustofunni minni á nýja staðnum og nýt útsýnisins gegnum stóru gluggana.

Þessa mynd tók ég af vinnustofunni þegar ég var fyrst búin að raða upp í hana, hef enn ekki haft tíma til að fínpússa og taka uppúr kössum. Lærdómur gengur fyrir. Langaði bara að sýna fallega tekkskrifborðið mitt sem ég fékk á litlar 3000kr í Fjölsmiðjunni á Akureyri. Eins og þið sjáið þá er bakhliðin með hillum og þeim megin sem ég sit eru skúffur öðru megin og skápur hinumegin – alvöru mubla fyrir lítinn pening 🙂