Flokkaskipt greinasafn: Húsfreyjan

Húsráð frá frúnni

Stofugardínur fyrir lítinn pening

Það þarf ekki að kosta mikið að gera fallegar gardínur og um að gera að hafa augun hjá sér eftir fallegum efnum í bæjarferðum. Ég rambaði einmitt á eina 5 metra af gamaldags gardínum í Hjálpræðishernum um daginn og borgaði heilar 400kr fyrir herlegheitin. Þær fóru beint í þvottavélina og komu út eins og nýjar, eftir smá umhugsun ákvað ég að setja þær fyrir stærsta gluggann okkar sem vísar í vestur – útkoman var nokkuð góð:

Flutningar

Elskulega Brekkukotið okkar er nú selt, við flytjum þó ekki langt og höldum okkar innan hverfisins sem við elskum svo mikið. Við fengum snotra en rúmgóða íbúð til leigu á meðan við leytum að framtíðarhúsnæði og snúast dagdraumar um ýmislegt sem skal framkvæmt á nýja staðnum. Ég stóðst ekki mátið og fór á stúfana í leit að húsgögnum til að fylla upp í fermetrafjöldan þar sem litla búslóðin okkar dugar skammt í allt þetta rými. Hagsýn húsmóðir hugsar um hverja krónu og lá beinast við að kíkja inn á Barnaland og viti menn datt ég ekki niður á þennann dásamlega eldhúsbekk fyrir slikk:

Mig dreymir um að pússa hann upp, lakka og fylla af litríkum púðum eða sessu. Eiginmaðurinn er í Höfuðborginni og sótti bekkinn í gær, hann fullyrti að þetta hefðu verið kostakaup og ég myndi hoppa af gleði við að sjá hann – ég bíð spennt 🙂 Ég kíkti líka í Fjölsmiðjuna á Akureyri þar sem beið mín forlátur fermingarbeddi, en þeir sem ekki kannast við slíka gripi þá er þetta einskonar sófi með rúmfatageymslu í bakinu – þegar maður svo dregur armana á honum út má setja bakstykkin þar niður og búa til bedda. Hann er úr tekki með grænu áklæði – ég hugsa að hann endi í einhverjum glaðlegum lit með nýrri yfirdekkingu. Ekki slæm fjárfesting fyrir 2500kr.  🙂

Ég hvet alla þá sem eru að stækka við sig að hugsa sig tvisvar um áður en allt er keypt nýtt, það má finna ótal falleg húsgögn og muni á nytjamarköðum og netinu ef maður bara hefur snert af þolinmæði, smá hugmyndaflug og dass af málningu 🙂

Sítrónuilmur í örbylgjuofninn?

Ég er búin að draga það óendanlega lengi að þrífa örbylgjuofnin, við hjú erum hvorugt dugleg að nýta okkur plasthlífina sem er til á heimilinu og þar sem við erum bæði ætíð á þönum hefur þetta verkefni setið á hakanum.                      

 

Á ferð minni um netheim rakst ég á heimasíðu Kvenfélagasambands Íslands sem nefnist Leiðbeiningastöð heimilanna en þar má finna ýmis húsráð, uppskriftir og annað nytsamlegt. Þar á meðal var að finna gott ráð við þrif á örbylgjuofni og leyfi ég því að fylgja hér með:

  •   Setjið vatn í skál (sem þolir örbylgju)
  • Skerið sítrónu í sneiðar (ég hafði mínar c.a. 0,5cm á þykkt) og setjið út í skálina
  • Stillið örbylgjuofninn á hæstu stillingu, setjið skálina inn og hitið í 2 mínútur.
  • Takið skálina út, þurrkið óhreynindin með rökum klút og farið því næst yfir ofninn með þurrum klút.

Þetta er súpereinfalt, virkar mjög vel og það kemur léttur sítrusilmur í örbylgjuofninn sem er mjög frískandi – endilega prufið 🙂