Flokkaskipt greinasafn: Textíll

Allt það mjúka fyrir heimilið

Fuglaórói

Ég var að ganga frá pullu sem ég saumaði í vor og afklippurnar virtust ekki ætla að nýtast í neitt. Mig rámaði í að hafa séð snið af litlum fuglum á netinu og ákvað að gera tilraun til þess að endurgera eitthvað í svipuðum dúr. Útkoman varð þrælskemmtileg svo ég ákvað að gera fleiri fugla úr öðrum efnum. Úr varð órói handa litlu barni sem kemur í heiminn eftir þrjár vikur.  Mamman fékk hann í afmælisgjöf og vakti mikla lukku. Ég átti til borða í fallega bleikum lit (það er mjööög líklegt að þetta verði stelpa) og perlur í ýmsum stærðum og eftir smá þolinmæðisvinnu varð úr þetta:
Fuglarnir eru allir úr mismunandi efnum sem þó passa öll saman, þannig geta verðandi foreldrar valið nánast hvaða liti sem er með. Myndirnar eru teknar í flýti en ég vona að þetta sjáist nokkuð skýrt.

Stofugardínur fyrir lítinn pening

Það þarf ekki að kosta mikið að gera fallegar gardínur og um að gera að hafa augun hjá sér eftir fallegum efnum í bæjarferðum. Ég rambaði einmitt á eina 5 metra af gamaldags gardínum í Hjálpræðishernum um daginn og borgaði heilar 400kr fyrir herlegheitin. Þær fóru beint í þvottavélina og komu út eins og nýjar, eftir smá umhugsun ákvað ég að setja þær fyrir stærsta gluggann okkar sem vísar í vestur – útkoman var nokkuð góð:

Fyrir og eftir: Fermingarbekkur

Okkur sárvantaði fleiri stóla/sófa þegar við fluttum og þar sem við áttum bara tveggja og hálfs sæta sófa þá fór ég á stúfana í leit að einhverju ódýru en sniðugu. Eftir að hafa þrætt Bland í nokkra daga án árangurs, rakst ég á mynd af gömlum fermingarbekk hjá Fjölsmiðjunni á Akureyri fyrir litlar 2500kr og keypti hann meira fyrir nostalgíuna en praktík. Hann reyndist svo vera hin mesta gersemi og er þannig gerður að undir sessunni er rúmfatageymsla, hægt er að draga út armana og leggja bakpullurnar niður í endana og búa til legubekk/rúm.

Ég var nú ekkert sérstaklega hrifin af áklæðinu á bekknum, en það er mjög þykkt og svampurinn og gormarnir í góðu lagi, þannig að í stað þess að bólstra hann uppá nýtt þá ákvað ég að sauma utan um hann áklæði. Til verksins leitaði ég að efni í eigin fórum og fann fallegan bómullardúk sem ég keypti á útsölu í Rúmfatalagernum fyrir löngu síðan. 

Ég mældi svo bekkinn og pullurnar gróflega og sneið eftir málunum búta. Allir kantar á bútunum voru svo zik zakkaðir svo að efnið myndi ekki rekjast upp. Þvínæst títaði ég áklæðið í rétt form eftir svampnum og saumaði svo eftir títuprjónunum. Til að ganga almenninlega frá ætla ég að hefta áklæðið niður með heftibyssu svo að efnið strekkist fallega yfir, í millitíðinni títaði ég það bara niður að framan fyrir myndatöku. Afraksturinn af þessu ævíntýri er svo eftirfarandi, ég er mjög skotin í bekknum svona ferskum og á örugglega ekki eftir að tíma að láta bekkinn frá mér þegar við loks eignumst nýjann sófa:

Kostnaður: Bekkur – 2500kr, Bómullardúkur – 1690kr, Tími – 2 klukkustundir!

Grjónapúðar í Sirku

Ein uppáhalds-verslunin mín hér á Akureyri er Sirka. Þar fæst allt milli himins og jarðar til að prýða heimilið og er hver hlutur öðrum fegurri þar inni. Það gladdi mig því mjög þegar eigandi verslunarinnar, Elín, féllst á að hafa handgerða grjónapúða eftir mig í búðinni hjá sér.

Grjónapúðarnir eru úr sérstaklega fallegu og mjúku bómullarflóneli. Grjónin eru valin með tilliti til þess að þau falli vel að líkamanum og stingi ekki. Púðinn er góður á aumar axlir, þreytt bak eða kaldar tær. Við eigum þrjá púða heima sem við notum mikið, ektamanninum finnst gott að hafa sinn á hausnum á meðan ég kýs að hafa einn á öxlum eða baki en hinn á freðnum tánum 🙂

Endilega kíkið í Sirku – það er ekki annað hægt en að fyllast innblástri og vellíðan af að kíkja þar inn.

m

Fjarstýringuhólfið fína

Ég hef lengi verið hrifin af FLÖRT, fjarstýringuhólfinu frá IKEA:

Hins vegar fannst mér litirnir sem IKEA býður uppá ekki fara vel við ljósa sófann okkar auk þess sem að fjarstýringarnar við sjónvarpið eru ekki í stöðluðum stærðum. Nú voru góð ráð dýr þar sem við vorum sammála um það að fjarstýringuhólfið myndi létta verulega á sófaborðinu okkar. Því brá ég á það ráð að gera tilraun til þess að sérsauma fjarstýringuhólf með hólfum í réttri stærð og það besta var, efni af eigin vali! Útkoman var þessi:

Eftir að hafa teiknað upp smá skissu og reiknað út efnisþörf, valdi ég efni frá Amy Butler, en þau fást í Storkinum. Ég styrkti efnið með flísolíni, bjó til skábönd úr sama efni og nostraði pínu við fráganginn. Ég er hæstánægð með fjarstýringuhólfið og vona að þið kunnið að meta útkomuna.

Með von um að veita ykkur innblástur – maría