Skinkuhorn

Þá er það enn ein klassíkin úr baksturshorni Brekkukots, en þessa uppskrift ólst ég upp við í æsku. Skinkuhorn eru vinsæl jafnt hjá börnum sem og fullorðnum, einföld í gerð og gómsæt. Uppskrift:

2 1/2 dl mjólk
100gr smjörlíki
1 pakki þurrger
1 tsk sykur
1 tsk salt
500 gr hveiti
1 askja smurostur að eigin vali

Hitið ofninn á 250 gráður. Smjörlíkið er brætt og mjólkinni svo bætt út í, yljað saman en alls ekki láta sjóða. Þurrefnunum blandað saman í skál og volgri blöndunni helt út í. Hnoðað vel saman og látið hefast í eins og klukkustund. Þá er deiginu skipt í tvennt og hvor hluti flattur út í hring. Hver hringur er svo skorinn út í 8 þríhyrninga eins og pizza.
Það má fylla hornin með hverju sem er, ég set oftast beikonsmurost og smá skinkukurl, þá hef ég einnig prufað að setja ostsneið, pizzasósu, skinkukurl og pepperóní. Fyllingin er sett á breiðasta enda hvers þríhyrnings, endarnir brotnir innaf og svo rúllað upp. Ég leifi svo hornunum að hefast í eins og 15 mínútur til að koma í veg fyrir að fyllingin bráðni út í bakstrinum.
Sláið egg og smá dass af mjólk saman og penslið hornin, dreifið þvínæst sesamfræjum eða birkifræjum yfir (fer eftir smekk). Bakið í 10-15 mínútur eða þar til gullinbrún. Látið kólna smá og njótið vel. Hornin geymast vel í frysti og er lítið mál að taka þau út og afþýða í örbylgju ef gesti ber að garði.

Leynistaðurinn Laufás

Ég á mér lítinn leynistað, hann er reyndar opinn öllum, en mér finnst allt of fáir leggja leið sína þangað. Laufás er gamalt bæjarstæði austan megin í Eyjafirðinum og er gaman að heimsækja staðinn og hverfa aftur til liðinna tíma. Ég fór þangað þrisvar í sumar og hafði ánægju að í hvert sinn enda kyrrðin með ólíkindum og fegurðin engri lík. Þessar myndir eru teknar á svokölluðum starfsdegi í Laufási, en þá er boðið uppá allskonar kræsingar framreiddar á gamla mátann. Ég man enn í dag bragðið af áfum með kanil og rabarbarasaft, svo ekki sé minnst á hlóðabökuðu lummurnar.

Ég hlakka til næsta sumars þegar Laufás opnar dyr sýnar að nýju, á meðan lifir minningin um dásamlega sumardaga og himneskar veigar.

Gulrótarmuffins

Enn einn sunnudagsmorguninn og hvað er betra en að henda í gulrótarmuffins úr lífrænt ræktuðum gulrótum til að gleðja eiginmanninn? Læt fylgja með mynd af afrakstrinum, fleiri er svo á leiðinni af ýmsum framkvæmdum. Öll loforð um hina ýmsu pósta fór fyrir bí þegar fallega ofurtalvan mín reyndist gölluð og þurfti á yfirhalningu að halda í sumar. Glataði mikið af myndum sem ég var búin að taka fyrir bloggið og er að vinna það upp smátt og smátt – en hvað um það muffins (uppskrift kemur síðar) :

Borðskreytingar

Þá að borðskreytingum úr brúðkaupinu. Það var mikið búið að pæla og spekúlera hér á bæ um hvernig skreytingar við vildum hafa, við vorum þó sammála frá upphafi; þær mættu ekki kosta mikið. Það kom sá dagur að ég fékk hugljómun þegar ég kláraði úr einni sultukrukku sem var svo falleg í laginu að  mér fannst mikil synd að hún færi í endurvinnsluna. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði rekist á skreyttar krukkur á mörgum hönnunarbloggum. Ég stakk því uppá því við ektamanninn að við myndum safna krukkum af ýmsum stærðum og gerðum, skreyta og setja svo kerti ofan í. Það varð eining um þetta og hófst þá söfnunin.

Það er skemst frá því að segja að við söfnuðum yfir 300 krukkum með dyggri aðstoð ættingja og vina. Eiginmaðurinn tók að sér að miðahreinsa krukkurnar og í sameiningu skreyttum við þær á ýmsann máta. Flest allt skrautið sem við notuðum áttum við hérna heima t.d. borða, blúndur og pappír. Ég fór svo og verslaði kökublúndu í Mega Store, við hjú týndum köngla í massavís og svo freistaðist ég til þess að kaupa skrautborða með lími í A4 og lakk í Föndru. Útkoman varð fjölbreytt, hér eru þær nýttar áfram inná heimilinu í bland við aðra skrautmuni:

Allt saman í okkar litum og vakti mikla lukku, þegar hafa margir fengið krukkurnar lánaðar og hafa þær verið notaðar í nokkur stórafmæli, jólahlaðborð og árshátíð. Mér reiknast til að heildarkostnaður við allar krukkurnar hafi verið tæpar 4000kr. Eftir brúðkaupið, sem var í Nóvember, pökkuðum við svo fallegustu krukkunum saman í selló, fjórar til fimm í hvern pakka, og gáfum vinum og ættingjum í aðventugjafir. Þær lýsa nú upp hús ástvina okkar um allt land og er bara gaman að því.

Alþjóðlegi strumpadagurinn

Í dag er alþjóðlegi strumpadagurinn en þessar sígildu teiknimyndir eru órjúfanlegur hluti af minni æsku. Ég man eftir tilhlökkuninni um helgar þegar ég fór með mömmu og pabba í Hagkaup í Skeifunni því þar var sjónvarpsherbergi fyrir börn og strumparnir ætíð á skjánum.
Þegar við hjón vorum að plana brúðkaupið okkar veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að hafa kökutopp á eftirréttahlaðborðinu. Ég var búin að skoða mikið á netinu og velja þrjá sem mér leyst á og sýndi eiginmanninum sem hafði ekki mikla skoðun á þessum málum.
Ég rakst svo á þessi:

og sýndi eiginmanninum tilvonandi meira í gríni en alvöru og hann varð svo yfir sig hrifinn að ég átti ekki til orð. Hjónaband snýst um málamiðlanir og þó svo að ég hefði frekar viljað kökutopp sem passaði öðrum skreytingum þá fannst mér svo æðislegt hversu upprifinn eiginmaðurinn var af þessari tillögu að ég pantaði strumpahjúin og lítið hús með. Þau standa nú uppí hillu og minna ekki bara á dásamlegann dag heldur líka það að halda í barnið í sjálfum okkur.

Hvar á ég að sitja?

Það er ekki nóg að raða fólki í sæti í brúðkaupi, það þarf að merkja borðin vel svo að fólk eigi auðveldara með að finna sitt borð. Okkar lausn var einföld, ódýr og mjög skemmtileg. Við keyptum litlar minnisbækur í Tiger sem við notuðum sem borðavísi. Utan á hverja bók fór smá skraut og svo númerið á borðinu, inní bókinni ver penni, líka úr Tiger, og máttu gestir skrifa hvað sem er í bækurnar – trúið mér við engdumst um af hlátri við lesturinn daginn eftir!
Ég notaði silfurlitann glimmergjafapappír til að búa til borðnúmer og afskorninga af boðskortunum til skrauts. Framkvæmdin er á þessa leið:

  1. Tölustafirnir prentaðir út í réttri stærð úr Word
  2. Þeir kliptir út og notaðir til þess að strika eftir á glimmerpappírinn, ég þurfti að strika stafina á rönguna á glimmerpappírnum og þess vegna snúa pappírsstöfunum öfugt.
  3. Glimmerstafirnir klipptir út
  4. Skrautið límt á og svo glimmerstafurinn
  5. Voila – tilbúið 🙂

Heildarkostnaður við gerð bókanna (9stk) var um 3500kr og við eigum skemmtilega minningu frá hverju og einu borði. Það má útfæra þessa hugmynd á marga vegu, nota annað letur í tölustafina, nota fallegann borða í stað blúndunnar, skipta út litunum, nota ljósmyndir í stað númers, götuheiti, trjátegundir og bara nefnið það – látið hugmyndaflugið ráða!

Aftur í gírinn

Þá er fyrsta skólaárinu lokið með glans, væri alveg til í að hoppa yfir sumarið og byrja strax aftur. Og þó, við hjú stöndum enn og aftur í flutningum þar sem að leiguíbúðin okkar fagra seldist, þakka fyrir að hafa ekki verið búin að taka uppúr öllum kössum. Stórafmæli eiginmannsins er framundan og ég ætla að reyna að gera öllum kræsingum skil með myndum og uppskriftum! Ætla líka að koma með nokkrar tillögur að brúðkaupstengdum verkefnum sem við framkvæmdum fyrir stóra daginn okkar á síðasta ári og er þetta aðdragandinn að því:

Við giftum okkur í Nóvember og völdum okkur litapalettu samkvæmt því, hvítur, silfraður, blár, grár og brúnn urðu fyrir valinu og svo var unnið í kringum það. Læt hér fylgja með litapalettuna og svo fljúga vonandi inn blogg í framhaldinu!

Kanilhnútar

Frá því ég man eftir mér hef ég verið vitlaus í kanil, ég drekkti yfirleitt mjólkurgrautnum mínum með honum, þrjóskaðist til að tyggja Big Red tyggjó þó mér þætti það alltof sterkt og svona mætti lengi telja. Best þótti mér þó (og þykir enn) nýbakaðir kanilhnútar hjá mömmu – krakkarnir í hverfinu hópuðust oft á pallinn hjá okkur í den þegar mamma hóaði í kaffi (meira að segja synir bakarans í næsta húsi), svo góðir eru þeir. Ég baka þá oft sjálf, þeir eru mjúkir, bragðgóðir og hentugt að eiga þá í frysti þegar óvænta gesti ber að garði. Eftirfarandi er uppskrift af þessari sælu:

1 kg hveiti
4 msk þurrger (2 pakkar þurrger)
6 msk sykur
1 tesk salt
3 stk egg
4,5 dl mjólk
150 gr smjörlíki

Mjólk og smjörlíki er iljað saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað – alls ekki láta sjóða. Þurrefnunum er blandað vel saman í skál og eggjunum þvínæst bætt útí. Mjólkurblöndunni er svo blandað út í deigið og allt hnoðað saman. Látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma undir hreinu og röku viskastykki.

Skiptið deiginu upp í fjóra parta, fletjið hvern og einn út í aflangann ferning. Bræðið smá smjörlíki og penslið ofan á útflatt deigið, dreifið hæfilegu magni af kanelsykri yfir. Takið pizzaskera/kleinuskera og skerið deigið í c.a. 3cm lengjur á eftir lengri hlið deigsins. Takið hverja lengju fyrir sig, brjótið saman langsum og hnýtið hnút – leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Þegar allir hnútarnir eru tilbúnir og konmir á plötu látið þá hefast í c.a. 20 mín.

Hitið ofninn á 200gráður. Penslið hnútana með eggjablöndu (eitt egg og dass af mjólk slegið saman). Bakið í miðjum ofni í c.a. 12 mín (fer eftir stærð hnútanna). Þeir ættu að líta svona út þegar þeir eru tilbúnir:

Borðist nýbakað með ískaldri mjólk – afgangurinn fer svo í frystinn til betri tíma!

Bananamuffins með súkkulaðibitum

Sunnudagsmorgnar eru að mínu mati sérlega hentugir til baksturs. Þennann morgun var komin tími á að baka bananamuffins, já eða tími til kominn að baka muffins úr vel þroskuðu bönununum sem voru að syngja sitt síðasta. Læt hér fylgja uppskrift af þessari dásemd – en hún er einföld í framkvæmd og smakkast mjög svo vel:

245 gr hveiti
100 gr sykur
50 gr ljós púðursykur/dökkur er í lagi ef hinn er ekki til
1 tesk. lyftiduft
1/2 tesk matarsódi
1/4 tesk salt
100 gr brytjað dökkt (eða hvítt) súkkulaði/ég hef líka notað konsum dropa

2 stór egg
113 gr smjör, brætt og kælt
3 vel þroskaðir bananar
1 tesk vanilludropar

Aðferð:
Ofninn stylltur á 180 gráður. Þurrefnunum er blandað vel saman í hrærivélaskál. Smjörið er brætt og kælt í annari skál, eggjunum hrært við (ég nota gaffal), bananarnir afhýddir og stappaðir vel saman við og svo vanilludropum bætt út í og hrært vel. Bananastöppunni er þvínæst blandað út í hrærivélaskálinna og allt saman hrært vel. Ég baka þessa uppskrift alltaf í sílíkonmuffinsformum sem ég keypti í Bónus á sínum tíma. Uppskriftin nægir í 12 stór muffins. Bakist í 20-25 mín á 180 gráðum.

Muffinsið er best nýbakað en geymist þó ágætlega í nokkra daga eftir bakstur. Þá er líka gott að taka það ilmandi nýtt úr ofninum og hafa með því eins og eina kúlu af vanilluís : )

Fallegir stólar

Hún móðir mín lét okkur hjónakornin hafa virkilega fallega og þægilega stóla í búið þar sem hún hafði ekki not fyrir þá sjálf. Þetta er par og sóma þeir sér vel í vinnustofunni minni. Ég ákvað að setja þá hér inn og velta einnig upp spurningu um hvort einhver kannist við handverkið eða hafi séð sambærilega stóla einhversstsaðar: